Monday, March 8, 2021

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti, sem er í dag, 8. mars, sendir DíaMat kveðjur til allra sem styðja málstað friðar og jafnréttis, og minnir á að margt er enn óunnið. Menningar- og friðarsamtökin MFÍK halda engan baráttufund í dag, eins og annars er venjan, en í staðinn ætti hver og einn að hugsa hvað sé hægt að gera í þágu friðar og jafnréttis -- já, og jafnvel fleiri þjóðrifamála.
Vésteinn Valgarðsson 

Monday, February 22, 2021

AF AÐALFUNDI

Helstu fréttir af aðalfundi DíaMats þriðjudagskvöldið 16. febrúar sl. eru að inn í stjórn komu þær Claudia Overesch og Ingibjörg Ingvarsdóttir og eru þær boðnar velkomnar, um leið og Tinnu Þorvalds Önnudóttur og Skúla Jóni Unnarsyni eru þökkuð störf í stjórn félagsins undanfarin ár. Ingibjörg var auk þess samþykkt í öldungaráð félagsins. Skoðunarmenn reikninga verða Árni Daníel Júlíusson og Skúli Jón Unnarson.

Önnur aðalfundarstörf voru að mestu hefðbundin. Væntar tekjur af sóknargjöldum verða nálægt 1,8 milljónum á starfsárinu og var samþykkt að hækka eyrnamerkt framlög í styrktarsjóð og byggingarsjóð upp í 750.000 kr. á hvorn.

Eins og sjálfsagt má segja um flest félög, hefur Covid-farsóttin haft mikil áhrif á fundahöld DíaMats á síðasta starfsári og sett flestu öðru starfi okkar skorður. Ekki gafst tími á aðalfundi til að ræða ítarlega um starfið á næstunni, svo það verður tekið upp á fundi fljótlega, ef samkomutakmarkanir leyfa.

Wednesday, January 20, 2021

Aðalfundur DíaMats 16. febrúar

DíaMat heldur aðalfund þriðjukvöldið 16. febrúar kl. 20:00 í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105.

Á dagskrá fundarins eru hefðbundin aðalfundarstörf.

Húsið er aðgengilegt, fundurinn fer fram á íslensku, veitingar verða í boði og líka handspritt og grímur. Allir félagar velkomnir ... en í ljósi Covid19 skiljum við samt vel ef fólk kýs að koma ekki.