Tuesday, April 20, 2021

Húsdýragarðurinn á sumardaginn fyrsta

Á fimmtudaginn er sumardagurinn fyrsti og eins og fyrri ár hefur DíaMat ákveðið að bjóða í Húsdýragarðinn. Planið er einfalt: Félagið mun borga aðgangseyri fyrir alla sem vilja, sem mæta og hitta okkur fyrir framan hliðið klukkan 10:50. (Þetta er ekki bundið við skráningu í félagið, nær bara til allra sem eru hæfir til að vera innan um börn og dýr.) Þaðan verður farið og séð þegar selirnir eru fóðraðir, og síðan önnur dýr. Við borðum saman í hádeginu og eftir það hefur hver sína hentisemi.

Athugið að ekki eru seldar veitingar í garðinum um þessar mundir. Komið því með nesti með ykkur. Við munum líka koma með eitthvað ætilegt.

Athugið líka að vegna sóttvarna eru fjöldatakmarkanir í garðinum, svo gætið að allri smitgát. Og klæðið ykkur eftir veðri.

Á sumardaginn fyrsta er afmæli allra sem telja aldur sinn í vetrum, eins og dýranna í garðinum. En það vill til að DíaMat á sjálft afmæli á fimmtudaginn, stofnað 22. apríl 2015. Við ætlum því að halda upp á það í leiðinni. Sjáumst!