Monday, December 21, 2020

Vetrarsólstöður

 Gott fólk nær og fjær,

gleðilegar vetrarsólstöður. Í dag er stysti dagur ársins og daginn tekur að lengja strax á morgun og allt fer að rétta úr kútnum. Hafið það gott, njótið jólanna -- og hvernig væri að hringja í gamlan eða einmana ættingja?

Vésteinn Valgarðsson

Tuesday, December 1, 2020

Fullveldisdagurinn

Gleðilegan fullveldisdag. Það er ekki sjálfgefið að heimsækja eldri ættingja sína í dag, en það er óhætt að hringja. Munið að taka fánann niður á lögboðnum tíma.
Annars eru sóknargjöld næsta árs reiknuð út miðað við skráningu fólks 1. desember árið á undan. Þannig að ef þið hafið verið að hugsa um að skrá ykkur í DíaMat en ekki látið verða af því, þá er mjög gott tækifæri til þess einmitt núna. Farið bara á skra.is með rafrænu skilríkjunum ykkar, finnið trúfélagsskráningu og veljið DíaMat. Það er ekki flóknara en það.

Wednesday, November 25, 2020

Styrkur til Pieta

DíaMat styrkti Pieta-samtökin um 125.000 krónur á dögunum. Þau stunda forvarnir gegn sjálfsvígum og sjálfskaða og styðja einnig við aðstandendur.

Þessi styrkur er sá fjórði sem DíaMat veitir í haust. Önnur samtök sem við höfum styrkt eru Hugarafl, Drekaslóð og Solaris. Þau hafa öll fengið sömu upphæðina.

Styrkir DíaMats eru greiddir af þeim tekjum sem félagið fær í sóknargjöld frá íslenska ríkinu. Það er ákveðin upphæð fyrir hvern einstakling (16 ára og eldri) sem er skráður í félagið í Þjóðskrá Íslands þann 1. desember árið s undan. Ef þið viljið skrá ykkur er fljótlegt og einfalt að gera það á skra.is

Monday, November 2, 2020

Styrkur til Drekaslóðar

DíaMat var að færa Drekaslóð styrk að upphæð kr. 125.000 til að styðja við þeirra góða og þarfa starf.

Þetta er þriðji styrkur haustsins. Áður hafa Hugarafl og Solaris flóttamannahjálp fengið sömu upphæð að styrk.

Þessir peningar koma af fjárhæðinni sem íslenska ríkið greiðir DíaMat í sóknargjöld vegna fólks sem er skráð í félagið hjá Þjóðskrá Íslands.

Hafið þið skráð ykkur? Það er gert á island.is með rafrænum skilríkjum og er bæði fljótlegt og einfalt!

Tuesday, October 27, 2020

Styrkur til Solaris

Í gær veitti DíaMat annan styrk haustsins, að upphæð 125.000 kr. Viðtakandinn var Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.

Peningarnir koma af því fé sem íslenska ríkið greiðir DíaMat í sóknargjöld, fasta upphæð fyrir hvern sem er skráður félagi. Það er fljótlegt og einfalt að skrá sig á island.is ef maður á rafræn skilríki. Hefur þú skráð þig? 

Tuesday, October 20, 2020

Styrkur til Hugarafls

Í gær mánudag færði DíaMat Hugarafli styrk að upphæð 125.000 krónur. Sá styrkur er veittur án neinna skilyrða, en með hugheilum baráttukveðjum. Við styrkjum góðan málstað sem er valdeflandi fyrir alþýðufólk og mun í fyllingu tímans styðja samtök alþýðunnar í að koma á betra og réttláta skipulagi í þjóðfélaginu.

Síðasti aðalfundur DíaMats samþykkti að verja hálfri milljón króna í styrki, sem deilast í fjóra jafnstóra til fernra mismunandi samtaka. Peningarnir koma frá sóknargjöldunum, sem íslenska ríkið greiðir félaginu með hverjum einstaklingi sem er skráður í það hjá Þjóðskra Íslands. Hver sem skráir sig í félagið styður starf þess og það munar um hvern einasta.

Tuesday, September 22, 2020

Jafndægur á hausti

DíaMat óskar jarðarbúum öllum gleðilegra jafndægra á hausti. Í dag dreifist sólarljósið jafnt um alla jörðina. Hugleiðið það aðeins. Hvað ef efnislegum gæðum, tækifærum og hamingju væri skipt jafnt?

Monday, June 1, 2020

Verkalýðurinn og COVID: díalektísk stund

Drífa Snædal, forseti ASÍ, kemur, segir frá og ræðir við fundargesti um áhrif COVID-19 á verkalýðshreyfinguna og baráttu hennar og störf.
Þriðjudagskvöldið 2. júní 2020 klukkan 20:00
Friðarhúsi, Njálsgötu 87
Allir velkomnir sem virða smitgát og eru að öðru leyti húsum hæfir.

Monday, May 11, 2020

Fundur þriðjudagskvöld

Þriðjudagskvöldið 12. maí heldur DíaMat fund um starf næstu mánaða. Þetta er díalektísk stund en um leið opinn stjórnarfundur.
Lóðarumsókn félagsins verður rædd og tekin ákvörðun um nlsta skref. Eindregið er mælt með því að fólk sem vill taka þátt í þeirri unræðu, verði búið að lesa úrskurð Umboðsmanns Alþingis frá 6. apríl áður en fundurinn hefst.

Thursday, April 23, 2020

Gleðilegt sumar

DíaMat óskar öllum gleðilegs sumars.
Vegna COVID-19 hefa fundir DíaMats legið niðri undanfarið, eins og flest annað, og ekki er ljóst hvenær við höldum næst fund. Við höfum verið vön að bjóða börnum og fullorðnum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn á sumardaginn fyrsta (því þá eiga dýrin afmæli) en það verður líka að biða betri tíma.

Thursday, March 19, 2020

Gleðileg vorjafndægur

DíaMat óskar öllum jarðarbúum gleðilegra vorjafndægra, en í dag er annar tveggja daga ársins þar sem sólarljósinu er deilt jafnt á alla jörðina.

Wednesday, March 4, 2020

Ljóðakvöld MFÍK 8. mars

Áttundi mars er í dag -- alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti, einn af þeim dögum sem DíaMat heldur hátíðlega. Við hvetjum félaga okkar og aðra til að taka þátt í einhverju í tilefni dagsins. Fyrir fólk sem er í Reykjavík eða nágrenni gæti til dæmis verið nærtækt að fara á ljóðakvöld MFÍK á Loft í Bankastræti kl. 20 í kvöld.

Tuesday, March 3, 2020

Verkaskipting stjórnar

Stjórn DíaMats hefur ákveðið að hafa verkaskiptingu stjórnar óbreytta frá því sem var.

Friday, February 21, 2020

Af aðalfundi DíaMats 2020

Á aðalfundi síðastliðinn laugardag var stjórn DíaMats endurkjörin óbreytt. Skoðunarmenn reikninga eru hinir sömu. Samþykkt var fjárhagsáætlun fyrir komandi starfsár, þar sem styrktarsjóði eru ætlaðar 500.000 krónur en byggingarsjóði 700.000 krónur. Afgangurinn af veltu reikningsársins mun standa undir öllum öðrum rekstrarkostnaði. Skýring er á því að byggingarsjóði sé ætlað svona miklu meira en styrktarsjóði -- óvenju mikið hlutfallslega, samanborði við fyrri ár -- er að fyrir um ári ákvað stjórn að veita styrktarsjóði lán úr byggingarsjóði til þess að veita styrk, sem annars hefði ekki verið hægt að borga. Þessi fjárhagsáætlun réttir hallann milli sjóðanna tveggja.
Eftir störf aðalfundar var rætt vítt og breitt um félagið sjálft, starf þes og stefnu. Má segja að meðal fundarmanna hafi ríkt sátt um hvernig starfið hefur verið, en um leið bjartsýni og margar hugmyndir um starfið í framtíðinni. Félagið getur gert margt annað en að halda díalektískar stundir og aðra fundi, eða að gefa framsæknum samtökum peninga. Ef þið hafið góða hugmynd fyrir félagið og viljið fylgja henni eftir í starfi, þá hvetjum við ykkur til að gefa ykkur fram við stjórnina.

F.h. stjórnar DíaMats,
Vésteinn Valgarðsson,
forstöðumaður

Friday, February 14, 2020

Munið aðalfund á morgun!

DíaMat heldur aðalfund sinn á morgun, laugardaginn 15. febrúar, í MÍR-salnum á Hverfisgötu 105, klukkan 16:00! Það verða veitingar í boði, hlökkum til að sjá ykkur!

Wednesday, January 22, 2020

Díalektísk stund: Miðstöð foreldra og barna

Miðstöð foreldra og barna, sem DíaMat styrkti á síðasta ári, ætlar að bjóða okkur í heimsókn í síðdeginu á miðvikudag í næstu viku. Það er takmarkað sætaframboð, svo vinsamlegast látið okkur vita ef þið viljið koma með, t.d. með tölvupósti: vangaveltur @ yahoo . com eða í síma 862 9067.

Tuesday, January 14, 2020

Aðalfundur DíaMats verður 15. febrúar


Aðalfundur DíaMats verður haldinn sunnudaginn 15. febrúar klukkan 16:00 í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105.

Dagskrá fundarins:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara,
2. Skýrsla stjórnar um starf félagsins á starfsárinu,
3. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram og afgreiddir,
4. Lagabreytingar,
5. Kjör tveggja stjórnarmanna,
6. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga, sem ekki eru í stjórn,
7. Kjör eins nýs félaga í Öldungaráð,
8. Önnur mál.
Takið daginn frá!

Wednesday, January 1, 2020

Gleðilegt nýtt ár

DíaMat óskar öllum árs og friðar.
Nýliðið ár var það umsvifamesta hingað til hjá félaginu. Skráðir félagar eru fleiri en nokkru sinni. Vegna mikillar fjölgunar frá árinu á undan var veltan að sama skapi meiri, sem m.a. gerði okkur kleift að veita rausnarlegri styrki en áður, alls 400.000 krónur. Aðalfundur í febrúar mun hafa úr ennþá meiru að spila. Það er gleðilegt að upplifa félagið dafna svona vel.