IÐKUN DÍALEKTÍSKRAR OG SÖGULEGRAR EFNISHYGGJU, ATHAFNIR OG HÁTÍÐIR

Samþykkt á stofnfundi DíaMats 22. apríl 2015 og með litlum breytingum á framhaldsstofnfundi 16. október 2015


Hvernig „iðkar“ maður díalektíska efnishyggju?


Þar sem díalektísk efnishyggja er ein tegund trúleysis, og felur ekki aðeins í sér að maður trúi ekki á yfirnáttúruleg fyrirbæri, heldur líka að maður beinlínis hafni tilvist þeirra, þá er engin tilbeiðsla af neinu tagi stunduð. Ef einhvern langar til að hugsa sér lífgefandi afl sem sé utan og ofan við valdsvið mannsins, þá bendum við á lögmál líffræði og eðlisfræði, sólina og jarðfræðilega eða efnafræðilega orkuferla. Hins vegar er eðlilegt að kynna sér bæði raunvísindi, hug- og félagsvísindi og heimspeki til þess að skilja betur hvað er að gerast í kring um okkur, og þar með til þess að hafa meira vald á umhverfi og velferð mannkynsins, ásamt því að þekkja takmarkanir okkar. Í því skyni býður díalektísk efnishyggja fólki að mennta sig sjálft og aðra og félagið styður þá viðleitni. Félagið boðar díalektíska efnishyggju með fræðslu og kynningu á hugmyndum hennar.

Við virðum mikils vísinda- og fræðimenn sem hafa lagt af mörkum til skilnings okkar og valds á okkur sjálfum og náttúrunni. Því minnumst við brautryðjenda raunvísindanna og félags- og hugvísindanna og þeirra stjórnmála- og verkalýðsleiðtoga sem hafa leitt alþýðu heimsins í sinni margvíslegu baráttu fyrir velferð sinni.

Hvað sjálfri díalektísku efnishyggjunni viðvíkur, eru Karl Marx og Friedrich Engels fremstir meðal jafningja. Heimspekilegir fyrirrennarar þeirra, Epíkúros, Demókrítos, Georg Wilhelm Friedrich Hegel og Ludwig Feuerbach, eiga einnig virðingarsess í huga okkar, sem og heimspekilegir sporgöngumenn þeirra, þar á meðal Georgi Plekhanov, Vladimir Ilyich Ulyanov og Antonio Gramsci. Félagið tekur sem slíkt ekki afstöðu í deilum um túlkun díalektískrar efnishyggju, svo sem milli György Lukács og Grigory Zinoviev eða milli Mao Zedong og Envers Hoxha, en stendur fyrir umræðu í málstofum og leshringjum, rannsóknum og útgáfu á fræðilegu efni um slíkar deilur.

Söguleg efnishyggja

Ásamt díalektískri efnishyggju boðar félagið hliðargrein hennar eða undirgrein, sögulega efnishyggju, sem fjallar um framþróun mannlegs samfélags og hvernig framfarir í framleiðsluháttum manna, í þekkingu, tækni og skipulagi framleiðslunnar, stuðla að félagslegri framþróun og breytingum, og hvernig framfarirnar stefna að lausn þeirra hindrana sem eru í veginum fyrir mannlegri velferð og farsæld: Hvernig baráttan við náttúruöflin vinnst með samvinnu, tækni og vísindum og hvernig baráttan fyrir félagslegum framförum vinnst með rökfestu, mannúð og samstöðu gegn úreltum eða vanþróuðum efnahagslegum og pólitískum skipulagsformum.

Athafnir

Félagið stendur fyrir nafngiftar- og útfararathöfnum fyrir þá félagsmenn sem þess óska, eftir atvikum sjálft eða í samvinnu við önnur félög eða fólk. Félagið sér um manndómsvígslur og gefur fólk saman. Um athafnir sér athafnamaður, það getur verið formaður eða annar félagsmaður sem stjórn getur skipað með einróma samþykki. Til þess að geta orðið athafnamaður þarf að hafa staðgóða þekkingu á díalektískri efnishyggju, stjórn útfærir þær kröfur nánar.

Félagið veitir félagsmönnum persónulegan og félagslegan stuðning eftir þörfum og atvikum.

Hátíðir

Félagið heldur hátíðir til að minnast stóratburða úr sögu baráttunnar fyrir framförum: átjánda mars minnist félagið valdatöku alþýðunnar í Frakklandi, sjöunda nóvember valdatöku alþýðunnar í Rússlandi og fyrsta desember minnist félagið fullveldis Íslands.

Félagið heiðrar daga sem hvetja til frekari framfara, þar sem áttunda mars er tekið undir alþjóðlega kröfu kvenna um frið og jafnrétti, fyrsta maí er tekið undir baráttu verkalýðsins fyrir hag sínum og sjötta ágúst er tekið undir baráttu alþýðu heimsins gegn kjarnorkuvígbúnaði.

Félagið fagnar sumarsólstöðum, þegar jörðin stendur í mestum blóma, vetrarsólstöðum, þegar dag tekur að lengja, og jafndægrum á vori og hausti, þegar sólin skín jafn á alla jarðarbúa.