Thursday, March 28, 2019

Skilyrði fyrir umboði frá DíaMat til hjónavígsluathafna

Forstöðumaður DíaMats er handhafi opinbers umboðs til þess að gefa saman hjón. Hann getur framselt vald sitt til athafnastjóra og athafnamanna, og til einstakra vígsluathafna.

Til að fá stöðu athafnastjóra eða athafnamanns hjá DíaMat þarf maður að hafa verið skráður í félagið 1. desember árið á undan. Maður þarf að hafa þekkingu á díalektískri og sögulegri efnishyggju og maður þarf að þekkja vel lög og reglugerðir um hjónavígslur á vegum skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Maður þarf að þekkja samþykktir DíaMats um athafnir. Stjórn skal halda undirbúningsnámskeið eða leshringi til að undirbúa umsækjendur um hlutverk athafnastjóra eða athafnamanns.

Stjórn þarf að samþykkja einróma skipunarbréf athafnastjóra eða athafnamanns áður en forstöðumaður veitir honum umboð til vígsluathafna. Umboð athafnastjóra gildir ótímabundið. Umboð athafnamanns gildi í eitt ár. Umboð athafnastjóra og athafnamanna falla niður ef þeir skrá sig úr félaginu. Stjórn getur svipt athafnamenn eða athafnastjóra umboði sínu ef þeir bregðast trausti félagsins, misfara með umboð sitt eða fylgja ekki reglum félagsins.

Allar athafnir félagsins standa félagsmönnum til boða að kostnaðarlausu. Fyrir hjónavígslu fólks sem er ekki í félaginu rukkar félagið 30.000 krónur. Sé annað hjónaefna í félaginu þegar athöfn fer fram en hitt ekki, rukkar félagið hálft gjald. Af gjaldinu skal vígslumaður fá 2/3 í þóknun fyrir vinnu sína.

Athafnir félagsins standa öllum til boða, óháð lífsskoðunum, kynhneigð eða annarri stöðu, svo fremi að lög leyfi hjúskapinn.

Umboð til stakrar athafnar
Forstöðumaður DíaMats getur veitt áhugasömum umboð til að framkvæma staka athöfn og er það þá sérstaklega tilgreint í skriflegu umboði. Til að fá slíkt umboð þarf umsækjandi að útskýra hvers vegna hann vilji fá vígslurétt og hvers vegna hann vilji fá hann hjá DíaMat en ekki hjá einhverjum öðrum. Félagið tekur sama gjald fyrir slíka athöfn eins og fyrir athöfn sem fulltrúi félagsins sjálfs heldur, eða 15.000 kr. fyrir hvert hjónaefni sem er utan félagsins.


Fyrir umboð til stakrar athafnar telur félagið 10.000 króna þóknun.

Samþykkt af stjórn DíaMats 13. mars 2019

Wednesday, March 20, 2019

Gleðileg jafndægur á vori!

Gleðileg jafndægur á voru, kæru jarðarbúar. Í dag er annar tveggja daga á árinu þar sem sólin skín jafnt á okkur öll.

Wednesday, March 6, 2019

8. mars á föstudag -- og díalektísk stund næsta þriðjudag

Á föstudag, 8. mars, er fundur í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti í Gamla bíói klukkan 17. DíaMat er einn af aðstandendum fundarins, en 8. mars er einn af þeim dögum sem við höfum í heiðri. Vonandi sjáumst við þar!
- - - - - -
Einar Kári Jóhannsson kemur á fund DíaMats í Friðarhúsi þriðjudagskvöldið 12. mars kl. 20 og les kafla úr "Undir fána lýðveldisins" eftir Hallgrím Hallgrímsson, endurminningar úr spánsku borgarastyrjöldinni.
Einar og félagar hans í Unu útgáfuhúsi voru að endurútgefa bókina, en DíaMat styrkti útgáfuna.
Hægt verður að kaupa bókina sjálfa á staðnum.

Tuesday, March 5, 2019

DíaMat á Facebook

Það eru meira og minna öll félög á Facebook núorðið. DíaMat lætur ekki sitt eftir liggja. Þið getið fundið like-síðuna okkar undir nafninu "Díamat" og við erum líka með hóp sem heitir "DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju" -- verið velkomin!