Sunday, December 30, 2018

Af fundi öldungaráðs í gær

Í gær fundaði öldungaráð DíaMats. Samkvæmt lögum félagsins kaus það þrjá stjórnarmenn úr sínum eigin röðum. Sjálfkjörnir voru: Skúli Jón Unnarson, Vésteinn Valgarðsson og Þorvaldur Þorvaldsson, með umboði frá næsta aðalfundi. Aðalfundur mun kjósa síðustu tvo. Ljóst er að a.m.k. einn nýjan stjórnarmann þarf þá, svo félagar eru hvattir til að íhuga framboð eða tilnefningar.
Rætt var um undirbúning aðalfundar. Stjórn mun velja fundinum stund og stað í seinni hluta febrúar. Kynntar voru tillögur til lagabreytinga, sem höfðu almennan stuðning fundarmanna. Þær eru flestar komnar til vegna nýrra reglna Þjóðskrár Íslands, svo að hægt verði að boða löglegan aðalfund í framtíðinni þótt nýjasta félagatal félagsins fáist ekki afhent vegna persónuverndarlaga. Taka skal fram að við munum láta reyna á lögmæti þeirrar túlkunar, en til öryggis er nauðsynlegt að breyta lögunum.
Þá var nokkuð ítarlega rætt um starf félagsins á komandi ári og árum og margar hugmyndir ræddar.
Fyrir fundinn var díalektísk stund, þar sem við fengum kynningu á hinni nýútkomnu bók 'Það sem karlar vilja vita - vísindalega sönnuð leyndarmál um samskipti kynjanna', en félagið styrkti útgáfu bókarinnar.

Friday, December 28, 2018

Það sem karlar vilja vita + öldungaráð

Á morgun laugardag 29. desember verða díalektísk stund OG öldungaráðsfundur á eftir.

Kl. 10 fáum við kynningu á hinni nýútkomnu bók 'Það sem karlar vilja vita - vísindalega sönnuð leyndarmál um samskipti kynjanna', en DíaMat styrkti útgáfu hennar.

Kl. 11 til 13 verður árlegur fundur öldungaráðs DíaMats, samkvæmt lögum félagsins.

Báðir fundir eru opnir öllum félögum og almenningi, en kosningarétt og kjörgengi á öldungaráðsfundinum hafa aðeins meðlimir öldungaráðsins.

Messukaffi!

Verið velkomin! Takið með ykkur gesti!

Saturday, December 22, 2018

Öldungaráð DíaMats

Laugardaginn 29. desember fundar öldungaráð DíaMats klukkan 11 í Friðarhúsi. Fundarboð hefur verið sent út. Fyrir fundinn verður díalektísk stund. Takið daginn frá. Dagskrá verður auglýst nánar er nær dregur.

Friday, December 21, 2018

Vetrarsólstöður

Í dag er stysti dagur ársins, á morgun fer daginn að lengja. Gleðilegar vetrarsólstöður og gleðileg jól.

Saturday, December 1, 2018

Fullveldið 100 ára

DíaMat -- félag um díalektíska efnishyggju óskar landsmönnum innilega til hamingju með 100 ára fullveldi landsins.