Sunday, December 22, 2019

Gleðilegar vetrarsólstöður!

DíaMat óskar öllum gleðilegra vetrarsólstaða og jóla! Ekki borða yfir ykkur og ekki gleyma ykkur í neysluhyggju! :)

Friday, December 13, 2019

17. desember: Jól og kapítalismi

Á díalektískri stund desembermánaðar verða jólin og kapítalisminn til umræðu.
Friðarhúsi, Njálsgötu 87 frá kl. 20-22 þriðjudagskvöldið 17. desember.
Allir velkomnir. Kaffi og harðfiskur!

Wednesday, December 4, 2019

Nýjustu tölur úr Austurbæjarskóla

Samkvæmt nýútkomnum tölum Þjóðskrár Íslands um skráningar í trúar- og lífsskoðunarfélög voru 132 manneskjur skráðar í DíaMat þann 1. desember síðastliðinn. Það er fjöldinn sem sóknargjöld næsta árs miðast við (það, og fjárlagafrumvarpið sem kveður á um upphæðina). Þetta er fjölgun um 45 manns, eða 51,7%, frá 1. desember 2018. Það er vægast sagt kærkomið að sjá þennan stuðning við starf félagsins og mun verða okkur mikil lyftistöng á komandi starfsári!

Sunday, December 1, 2019

Gleðilegan fullveldisdag

DíaMat óskar landsmönnum öllum til hamingju með fullveldi landsins, sem er ein aðalforsenda lýðræðisins. Við hvetjum ykkur til að gera ykkur glaðan dag í tilefni dagsins. Því ekki að flagga? Eða heimsækja aldraðan ættingja?

Wednesday, November 20, 2019

Styrkur til Miðstöðvar foreldra og barna

Í fyrradag færði DíaMat Miðstöð foreldra og barna styrk að upphæð 100.000 krónur.
DíaMat styrkir félagsstarf sem er valdeflandi fyrir alþýðufólk, og það er fátt meira valdeflandi en að alast upp með heilsteypt tilfinningalíf. Fyrir utan að styrkja Miðstöð foreldra og barna, hefur DíaMat líka keypt bækurnar Árin sem enginn man og 1000 fyrstu dagana eftir Sæunni Kjartansdóttur, og gefið nýjum foreldrum.
Styrkféð kemur úr sóknargjöldunum sem DíaMat fær frá ríkissjóði fyrir hvern félaga sem er skráður í félagið í gegn um Þjóðskrá Íslands. Það er sáraeinfalt að skrá sig og með því að gera það styrkir maður starf DíaMats, á borð við svona styrkveitingar.

Friday, November 15, 2019

Viðar Þorsteinsson í díalektískri stund 19. nóvember

Viðar Þorsteinsson flytur erindi um kenningar efnishyggjunnar um hugmyndafræði innan marxismans á díalektískri stund í Friðarhúsi þriðjukvöldið 19. nóvember kl. 20.
Verið velkomin!

Thursday, November 7, 2019

Gleðilegan sjöunda nóvember

Í dag eru 102 ár síðan alþýðan tók völdin í Rússlandi í sínar hendur.

Wednesday, November 6, 2019

Thelma Ásdísardóttir kynnir Drekaslóð

Thelma Ásdísardóttir kemur í díalektíska stund og kynnir samtökin Drekaslóð, sem hún er í forsvari fyrir og DíaMat hefur veitt nokkra styrki. Friðarhús, Njálsgötu 87, laugardaginn 9. nóvember kl. 13. Allir velkomnir!

Friday, November 1, 2019

Styrkur til Solaris

DíaMat veitti á dögunum 100.000 króna styrk til Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. Fyrr í haust veitti DíaMat Hugarafli og Drekaslóð hvoru sinn 100.000 króna styrkinn.
Peningarnir eru úr sóknargjöldunum sem DíaMat fær frá íslenska ríkinu, fasta upphæð fyrir hvern skráðan félaga. Með því einu að skrá ykkur í DíaMat styðjið þið við þetta og annað starf okkar.

(Athugið að Þjóðskrá Íslands neitar að svo stöddu að afhenda trúar- og lífsskoðunarfélögum lista yfir skráða meðlimi. Ef þið skráið ykkur og viljið vera örugg um að fá boð á aðalfund og njóta atkvæðisréttar, látið okkur þá vita af skráningunni.)

Vésteinn Valgarðsson í viðtali í Harmageddon

Á mánudaginn var kom Vésteinn Valgarðsson, forstöðumaður DíaMats, í viðtal í útvarpsþættinum Harmageddon. Hlusta má á viðtalið hér.

Wednesday, October 30, 2019

Styrkur til Drekaslóðar

Í fyrradag færði DíaMat Drekaslóð styrk að upphæð 100.000 krónur.
DíaMat styrkir starf nokkurra valinna félaga sem við teljum vera valdeflandi fyrir alþýðufólk. Í síðustu viku styrktum við Hugarafl um sömu upphæð og eigum í haust eftir að veita tvo svona styrki til.
Peningarnir koma úr sóknargjöldum sem félagið fær úr ríkissjóði, ákveðna upphæð fyrir hvern skráðan félaga. Því fleiri sem skrá sig í félagið, því meira hefur það úr að moða til styrkja og annars starfs. Hefur þú skráð þig?

Tuesday, October 22, 2019

Styrkur til Hugarafls

Í gær færði DíaMat Hugarafli styrk að upphæð 100.000 krónur.
Þessi styrkur er fyrsti af nokkrum sem verða veittir í haust. Aurarnir koma úr sóknargjöldunum sem íslenska ríkið greiðir DíaMat, ákveðna upphæð fyrir hvern einstakling sem er skráður í félagið hjá Þjóðskrá Íslands. Mikil fjölgun í félaginu á síðasta ári er ástæðan fyrir að við getum haft styrkina mun hærri í ár en þeir voru í fyrra.
Eruð þið búin að skrá ykkur? Það er mjög einföld og auðveld leið til að styrkja góðan málstað, og kostar ekkert fyrir ykkur sjálf.

Monday, October 21, 2019

Skráið ykkur í DíaMat -- og látið okkur vita

Um leið og DíaMat hvetur fólk til að skrá sig í félagið, og leggja þar með góðum málstað lið án mikillar fyrirhafnar, þá minnum við ykkur á að láta félagið vita að þið séuð skráð (helst í tölvupósti sem endar á yahoo.com en byrjar á "vangaveltur"). Til að gagnkvæm réttindi og skyldur skráðra félaga og félagsins séu á hreinu, þarf félagið að vita af ykkur. Það er vegna þess að Þjóðskrá Íslands neitar að afhenda trúar- og lífsskoðunarfélögum lista yfir þá sem eru skráðir hjá henni, og ber fyrir sig ný persónuverndarlög. Við getum t.d. ekki sent ykkur aðalfundarboð nema við vitum að þið séuð skráð.

Fljótlegasta leiðin til að skrá sig er að fara inn á Ísland.is og logga ykkur þar inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli. Þá veljið þið "Þjóðskrá" og "Skráningin mín" og síðan "Breyta trú-/lífsskoðunarfélagi" og velja DíaMat af listanum. Gleymið ekki að vista skráninguna! Og gleymið ekki að láta okkur vita, ef þið viljið njóta réttinda ykkar sem skráðir félagar.

Thursday, October 3, 2019

Fjölgun í DíaMat -- hefur ÞÚ skráð þig?

Í dag komu út frá Þjóðskrá Íslands nýjar tölur um skráningu í trúar- og lífsskoðunarfélög.
Samkvæmt þeim hefur fjölgað í DíaMat og eru nú skráðir 114 félagar. Það gerir jafnframt að við höfum færst upp um tvö sæti á listanum eftir stærð félaga og erum komin í 25. sæti af 49, eða nákvæmlega í miðjuna.
Eruð þið búin að skrá ykkur í DíaMat?
Það er hægt að gera það rafrænt í gegn um Island.is og er ótrúlega einfalt og fljótlegt.

(Athugið að ef þið skráið ykkur rafrænt þurfið þið að láta félagið ((þ.e.a.s. formanninn = mig)) vita, ef þið viljið fá aðalfundarboð í pósti til að geta notið réttinda ykkar sem félagar.)

Friday, September 27, 2019

Díalektísk vinnustund á sunnudag

Næstkomandi sunnudag, 29. september, heldur DíaMat díalektíska stund í friðarhúsi (Njálsgötu 87) milli kl. 13 og 15. Fókusinn verður á starf félagsins almennt og næstu mánuði. Allir velkomnir, þar á meðal fólk með börn. Hægt verður að skrá sig í félagið á staðnum. Þar verður líka hægt að nálgast bækur og fleira sem félagið hefur á boðstólum.

Monday, September 23, 2019

Jafndægur á hausti

Í dag, 23. september, eru jafndægur á hausti!
Í dag er annar tveggja daga, þegar sólskininu er jafnt skipt milli jarðarbúa, óháð því hvar á jörðinni þeir búa. Látum það vera okkur innblástur til að skipta gæðum lífsins jafnar milli jarðarbúa.
Haldið upp á daginn eins og hentar ykkur best. Því ekki að flagga?

Tuesday, August 27, 2019

Ráðstefna um sögulega efnishyggju

Við vekjum athygli á sextándu sögulegu efnishyggju-ráðstefnunni, sem verður haldin í London 7.-10. nóvember í haust! DíaMat vill styrkja félaga sína sem ætla á ráðstefnuna, um 20.000 kr. á mann. Ef þið ætlið að fara og eruð félagar, hafið þá samband við okkur.

Tuesday, August 13, 2019

DíaMat á LÝSU

DíaMat verður með í LÝSU, rokkhátíð samtalsins, á Akureyri 6.-7. september. Þar verður málstofa um arfleifð Rósu Luxemburg, nú þegar 100 ár eru liðin frá morði hennar. Meira um það síðar, en upplagt er að skoða síðu viðburðarins á Facebook:

Rósa Luxemburg - hundrað árum síðar

Monday, August 12, 2019

DíaMat á Menningarnótt

DíaMat verður að venju með á Menningarnótt í Reykjavík: Við kynnum félagið og bjóðum upp á veitingar við hliðina á róluvellinum á Arnarhóli milli kl. 13 og 14! Sjáumst!

Wednesday, June 19, 2019

Staða og sýn DíaMats: sunnudag

Fundur sunnudaginn 23. júní kl. 13, um stöðu, framtíðarsýn og áform DíaMats. Vésteinn Valgarðsson, forstöðumaður DíaMats opnar umræðuna.
Heitt á könnunni og með því.
Friðarhúsi, Njálsgötu 87.
Allir félagar og velunnarar DíaMats velkomnir.

Wednesday, May 22, 2019

Kapítalismi og umhverfismál

Díalektísk stund í Friðarhúsi miðvikukvöldið 22. maí kl. 20:00.

Varaformaður DíaMats Þorvaldur Þorvaldsson hefur framsögu um umhverfisvandann og tengsl hans við kapítalismann. Um leið kynnir hann nýútkomna bók sem hann þýddi, Það sem allir umhverfissinnar þurfa að vita um kapítalismann eftir Fred Magdoff og John Bellamy Foster. Kaffi og með því.

Verið velkomin!

Monday, April 22, 2019

Komið í Húsdýragarðinn á sumardaginn fyrsta

Á fimmtudaginn -- 25. apríl -- er sumardagurinn fyrsti. Af því tilefni ætlar DíaMat að bjóða í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Planið er einfalt: DíaMat býður öllum* sem koma milli 10:10 og 10:20 um morguninn að borga aðgangseyrinn. Þeim sem vilja er líka boðið að þiggja veitingar í kaffiteríunni í hádeginu. Komið með góða skapið, klædd eftir veðri og gleðilegt sumar!



mynd: reykjavik.is
* Þ.e.a.s. öllum sem eru hæfir til að vera innan um börn og dýr.


Friday, April 12, 2019

Ráðstefna Siðmenntar 1. júní

Þann 1. júní nk. heldur Siðmennt ráðstefnu um siðfræði 21. aldar. Stjórn DíaMats hefur samþykkt að ef skráðir félagar í DíaMat hafa áhuga á að sækja ráðstefnuna, geti þeir sótt um styrk frá félaginu fyrir hálfu þátttökugjaldinu. Skoðið heimasíðuna og vitið hvort þið hafið áhuga. Hafið samband við okkur ef þið eruð félagar og viljið sækja um styrk.

Wednesday, April 3, 2019

Díalektísk stund: Málefni flóttafólks

Þriðjudagskvöldið 9. apríl kemur Sema Erla Serdar á okkar fund og segir frá starfi Solaris, hjálparsamtaka fyrir flóttafólk og hælisleitendur á Íslandi, í díalektískri stund í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Umræður.

Allir velkomnir sem koma með friði. Kaffiveitingar.

Thursday, March 28, 2019

Skilyrði fyrir umboði frá DíaMat til hjónavígsluathafna

Forstöðumaður DíaMats er handhafi opinbers umboðs til þess að gefa saman hjón. Hann getur framselt vald sitt til athafnastjóra og athafnamanna, og til einstakra vígsluathafna.

Til að fá stöðu athafnastjóra eða athafnamanns hjá DíaMat þarf maður að hafa verið skráður í félagið 1. desember árið á undan. Maður þarf að hafa þekkingu á díalektískri og sögulegri efnishyggju og maður þarf að þekkja vel lög og reglugerðir um hjónavígslur á vegum skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Maður þarf að þekkja samþykktir DíaMats um athafnir. Stjórn skal halda undirbúningsnámskeið eða leshringi til að undirbúa umsækjendur um hlutverk athafnastjóra eða athafnamanns.

Stjórn þarf að samþykkja einróma skipunarbréf athafnastjóra eða athafnamanns áður en forstöðumaður veitir honum umboð til vígsluathafna. Umboð athafnastjóra gildir ótímabundið. Umboð athafnamanns gildi í eitt ár. Umboð athafnastjóra og athafnamanna falla niður ef þeir skrá sig úr félaginu. Stjórn getur svipt athafnamenn eða athafnastjóra umboði sínu ef þeir bregðast trausti félagsins, misfara með umboð sitt eða fylgja ekki reglum félagsins.

Allar athafnir félagsins standa félagsmönnum til boða að kostnaðarlausu. Fyrir hjónavígslu fólks sem er ekki í félaginu rukkar félagið 30.000 krónur. Sé annað hjónaefna í félaginu þegar athöfn fer fram en hitt ekki, rukkar félagið hálft gjald. Af gjaldinu skal vígslumaður fá 2/3 í þóknun fyrir vinnu sína.

Athafnir félagsins standa öllum til boða, óháð lífsskoðunum, kynhneigð eða annarri stöðu, svo fremi að lög leyfi hjúskapinn.

Umboð til stakrar athafnar
Forstöðumaður DíaMats getur veitt áhugasömum umboð til að framkvæma staka athöfn og er það þá sérstaklega tilgreint í skriflegu umboði. Til að fá slíkt umboð þarf umsækjandi að útskýra hvers vegna hann vilji fá vígslurétt og hvers vegna hann vilji fá hann hjá DíaMat en ekki hjá einhverjum öðrum. Félagið tekur sama gjald fyrir slíka athöfn eins og fyrir athöfn sem fulltrúi félagsins sjálfs heldur, eða 15.000 kr. fyrir hvert hjónaefni sem er utan félagsins.


Fyrir umboð til stakrar athafnar telur félagið 10.000 króna þóknun.

Samþykkt af stjórn DíaMats 13. mars 2019

Wednesday, March 20, 2019

Gleðileg jafndægur á vori!

Gleðileg jafndægur á voru, kæru jarðarbúar. Í dag er annar tveggja daga á árinu þar sem sólin skín jafnt á okkur öll.

Wednesday, March 6, 2019

8. mars á föstudag -- og díalektísk stund næsta þriðjudag

Á föstudag, 8. mars, er fundur í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti í Gamla bíói klukkan 17. DíaMat er einn af aðstandendum fundarins, en 8. mars er einn af þeim dögum sem við höfum í heiðri. Vonandi sjáumst við þar!
- - - - - -
Einar Kári Jóhannsson kemur á fund DíaMats í Friðarhúsi þriðjudagskvöldið 12. mars kl. 20 og les kafla úr "Undir fána lýðveldisins" eftir Hallgrím Hallgrímsson, endurminningar úr spánsku borgarastyrjöldinni.
Einar og félagar hans í Unu útgáfuhúsi voru að endurútgefa bókina, en DíaMat styrkti útgáfuna.
Hægt verður að kaupa bókina sjálfa á staðnum.

Tuesday, March 5, 2019

DíaMat á Facebook

Það eru meira og minna öll félög á Facebook núorðið. DíaMat lætur ekki sitt eftir liggja. Þið getið fundið like-síðuna okkar undir nafninu "Díamat" og við erum líka með hóp sem heitir "DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju" -- verið velkomin!

Sunday, February 17, 2019

Af aðalfundi DíaMats 16. febrúar

Aðalfundur DíaMats fór fram í gær, 16. febrúar. Þar var Tinna Þorvalds Önnudóttir kjörin í stjórn og Elín Helgadóttir endurkjörin. Sólveig Hauksdóttir var kosin í Öldungaráð. Árni Daníel Júlíusson og Claudia Overesch voru kjörin skoðunarmenn reikninga. Þær lagabreytingar sem stjórn mælti með voru samþykktar einróma. Þá var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir starfsárið. Fundurinn var vel sóttur og fór vel fram.
Að loknum aðalfundinum var díalektísk stund, þar sem var aðallega rætt vítt og breitt um starf félagsins framundan.

Friday, February 15, 2019

Díalektísk stund á eftir aðalfundi á morgun

Um leið og minnt er á aðalfund DíaMats á morgun laugardag 16. febrúar, klukan 16:00 í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105 -- er rétt að vekja athygli á því að díalektískri stund febrúarmánaðar er hnýtt aftan í aðalfundinn. Að loknum störfum aðalfundar hefst því díalektísk stund og umræðuefnið er nokkuð opið: hvert stefnir félagið, hvert á það að stefna og hvað á það að gera í framtíðinni?
MÍR-salurinn er aðgengilegur fyrir fólk í hjólastól. Þar er hins vegar ekki leikhorn, þannig að ef fundarmenn vilja koma með börn með sér (sem er mjög velkomið) mælum við með að hafa sitt eigið dund með.
Boðið verður upp á veitingar samboðnar börnum og fullorðnum.

Wednesday, February 6, 2019

Lagabreytingartillögur fyrir aðalfund DíaMats 16. febrúar


Aðalfundur DíaMats -- félags um díalektíska efnishyggju verður haldinn kl. 16:00 laugardaginn 16. febrúar næstkomandi, í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf. Fyrir fundinum liggja lagabreytingartillögur, þær eru merktar með rauðu í textanum hér að neðan. Núgildandi lög félagsins, óbreytt, má hins vegar finna hér á heimasíðunni.

LÖG FYRIR DÍAMAT
LÖG FYRIR DÍAMAT - FÉLAG UM DÍALEKTÍSKA EFNISHYGGJU
SAMÞYKKT Á STOFNFUNDI 22. APRÍL 2015, BREYTT Á AÐALFUNDI 28. JANÚAR 2017 OG AFTUR BREYTT 28. FEBRÚAR 2018

1 Nafn og aðsetur
1.1 Félagið heitir DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju.
1.2 Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. Starfssvæði þess er landið allt.

2 Tilgangur
2.1 Tilgangur félagsins er að vera samfélag og samstarfsvettvangur fólks sem aðhyllist díalektíska og sögulega efnishyggju, samkvæmt skilningi stofnskrár félagsins, til að stuðla að þroska, sjálfsforræði og velferð alþýðunnar.

3 Starf
3.1 Félagið mun vinna að tilgangi sínum með rannsóknum, boðun og fræðslu um díalektíska efnishyggju og í anda hennar. Það mun halda námskeið og málfundi. Það mun gefa út frumsamið og þýtt efni. Það mun styðja starf í anda stefnunnar, svo sem fræðistörf og baráttu fyrir mannréttindum og félagslegu réttlæti. Félagið vinnur að velferð og hamingju félagsmanna með persónulegum og félagslegum stuðningi og samstöðu, eftir þörfum og atvikum.
3.2 Félagið mun koma sér upp aðstöðu fyrir fundi og aðra starfsemi sína.
3.3 Félagið mun annast nafngjafir, jarðarfarir og aðrar athafnir þeirra félagsmanna sinna sem þess óska, sjálft eða í samstarfi við aðra. Það mun halda athafnir tengdar hátíðisdögum sínum.

4 Aðild
4.1 Félagið er opið öllum þeim sem aðhyllast díalektíska efnishyggju, eiga lögheimili á Íslandi, eru orðnir fullra 16 ára, samþykkja að hlíta lögum þess og eru skráðir í félagið hjá Þjóðskrá Íslands.
4.1.1 Stjórn skal eftir getu halda lista yfir nöfn, heimilisföng og tölvupóstföng félagsmanna. Félagsmenn skulu gefa sig fram við ritara stjórnar og láta hann vita ef breyta þarf eða bæta við skráningu í félagatal. 4.2 Stjórn getur vikið félögum úr félaginu ef þeir spilla orðstír þess, brjóta gegn lögum þess eða tilgangi eða bregðast trúnaði þess. Brottviknir félagar eiga rétt á að skjóta máli sínu til næsta aðalfundar eða aukaaðalfundar.

5 Öldungaráð
5.1 Öldungaráð DíaMats mynda allir þeir sem skráðir voru í félagið hjá Þjóðskrá Íslands þann 28. janúar 2017. Frá og með aðalfundi 2018 getur hver reglulegur aðalfundur kosið einn til viðbótar í Öldungaráð. Öldungaráðsmaður sem skráir sig úr félaginu hjá Þjóðskrá Íslands telst þar með einnig vera skráður úr Öldungaráði. Öldungaráðsmaður sem hættir tímabundið í félaginu, t.d. vegna búsetu erlendis, getur endurheimt stöðu sína í Öldungaráði með samþykki Öldungaráðs.
5.2 Fyrir hvern aðalfund skal Öldungaráð funda og kjósa úr sínum hópi þrjá stjórnarmenn, umboð þeirra tekur gildi frá aðalfundinum.
5.3 Fundur Öldungaráðs er löglegur ef til hans er boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara.

6 Stjórn
6.1  Stjórn félagsins skipa fimm félagar: Þrír eru kosnir  af Öldungaráði fyrir aðalfund, tveir eru kosnir á aðalfundi. Stjórn skiptir með sér verkum.
6.2 Ef stjórnarmaður forfallast til lengri tíma eða hættir í stjórn skal stjórn finna staðgengil til næsta aðalfundar eða aukaaðalfundar.
6.3 Stjórn ber sameiginlega ábyrgð á starfi félagsins milli aðalfunda og hjálpast að eftir atvikum.
6.4 Stjórn ber sameiginlega ábyrgð á firmaritun félagsins.
6.5 Stjórnarfundur er löglegur ef hann er boðaður með minnst fjögurra virkra daga fyrirvara og hann situr meirihluti stjórnarmanna.
6.6 Stjórn getur skuldbundið félagið fjárhagslega á grundvelli bókaðra samþykkta löglegra stjórnarfunda.
6.7 Stjórn ber sameiginlega ábyrgð á að halda skjölum félagsins til haga.
6.8 Formaður ber ábyrgð á að fundir séu boðaðir og hann stjórnar þeim ef ekki er annar fundarstjóri kosinn. Hann er aðaltalsmaður félagsins út á við. Hann hefur tvöfalt atkvæði ef atkvæðagreiðslur falla á jöfnu.
6.9 Varaformaður er staðgengill formanns.
6.10 Ritari ritar fundargerðir og aðrar bókanir í gerðabók félagsins. Hann heldur utan um spjaldskrá Öldungaráðs. Hann sér til þess að nýjustu upplýsingar um lög og aðrar samþykktir, og um stjórn og aðra trúnaðarmenn félagsins, séu ávallt aðgengilegar félögum og berist til ríkisskattstjóra.
6.11 Gjaldkeri hefur prókúru fyrir félagið. Hann ber ábyrgð á ársreikningi og öðrum reikningum og fjármálum félagsins gagnvart stjórn.

7 Reikningsár
7.1 Reikningsár félagsins er almanaksárið.

8 Aðalfundur
8.1 Aðalfundur er æðsta vald í málefnum félagsins.
8.2 Aðalfund skal halda fyrir lok febrúar á hverju ári.
8.3 Aðalfund skal boða á heimasíðu félagsins með tillögu að dagskrá, með minnst mánaðar fyrirvara. Hann skal einnig boða bréflega til allra sem hafa atkvæðisrétt og kjörgengi á fundinum, sjá grein 8.4.
8.3.1 Fái félagið ekki afhentan lista yfir félagsmenn sína frá Þjóðskrá Íslands, skal aðalfundur teljast löglega boðaður ef fundarboð er birt á heimasíðu félagsins og í prentuðu dagblaði. Auk þess skal stjórn senda bréflegt fundarboð til þeirra félagsmanna sem það veit um og getur náð í. 8.4 Á aðalfundi hefur hver sá félagsmaður kjörgengi og eitt atkvæði, sem er skráður í félagið hjá Þjóðskrá Íslands 1. desember árið á undan. Stjórn skal hafa þann lista til reiðu þegar aðalfundarboð er sent út, sbr. grein 8.3. Falli atkvæði á jöfnu hefur formaður tvöfalt atkvæði, nema í kosningu um lagabreytingar.
8.4.1 Fái félagið ekki afhentan lista yfir félagsmenn sína frá Þjóðskrá Íslands, skal það vera skilyrði kosningaréttar og kjörgengis félagsmanns á fundinum, að hann hafi fyrir kosningu fært fundarstjóra sönnur á að hann sé enn skráður í félagið. 8.5 Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.
8.6 Á dagskrá aðalfundar skal vera:
8.6.1 Kosning fundarstjóra og fundarritara,
8.6.2 Skýrsla stjórnar um starf félagsins á starfsárinu,
8.6.3 Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram og afgreiddir,
8.6.4 Lagabreytingar,
8.6.5 Kjör tveggja stjórnarmanna sem aðalfundur kýs,
8.6.6 Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga, sem ekki eru í stjórn,
8.6.7 Kjör eins nýs félaga í Öldungaráð (ekki skylda),
8.6.8 Önnur mál.
8.7 Stjórn getur bætt við dagskrárliðum í fundarboði ef þurfa þykir. Það getur aðalfundur einnig gert sjálfur.
8.8 Aðalfundi er stjórnað samkvæmt almennum fundarsköpum. Setji félagið sér sérstök fundarsköp, gilda þau.
8.9 Aukaaðalfund skal boða, á sama hátt og aðalfund, strax og formaður, meirihluti stjórnar eða þriðjungur Öldungaráðs eða fleiri æskja þess og leggja fram tillögu að dagskrá.

9 Lagabreytingar og slit félagsins
9.1 Lögum félagsins getur aðalfundur breytt með 2/3 hluta atkvæða. Fimmta kafla laganna, um Öldungaráð, verður þó ekki breytt nema með undangengnu samþykki Öldungaráðs ásamt samþykki aðalfundar.
9.2 Breytingar á stofnskrá skal afgreiða eins og lagabreytingu, en teljast ekki samþykktar nema með þrem fjórðu hlutum atkvæða.
9.3 Komi fram tillaga um að leggja félagið niður skal fara með hana eins og lagabreytingartillögu, en hún telst ekki samþykkt nema með þrem fjórðu hlutum atkvæða og að helmingur félagsmanna eða fleiri sitji fundinn. Sé tilskilinn meirihluti fundarmanna samþykkur tillögunni, en fundarsókn ófullnægjandi, skal án tafar boða til framhaldsaðalfundar innan fimm vikna og getur hann þá afgreitt tillöguna með sama hlutfalli atkvæða en óháð fundarsókn. Öldungaráð skal þá og koma saman og ráðstafa eignum félagsins í samræmi við tilgang þess.


Monday, January 28, 2019

Aðalfundur DíaMats verður 16. febrúar

Aðalfundur DíaMats verður haldinn í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105, laugardaginn 16. febrúar næstkomandi, klukkan 16:00.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf skv. lögum félagsins. Áhugasamir eru hvattir til að íhuga framboð til stjórnar, en á fundinum verður kosið um tvö stjórnarsæti.

Vegna nýrra persónuverndarlaga segist Þjóðskrá Íslands ekki munu láta trúar- og lífsskoðunarfélögum í té lista yfir þá sem eru skráðir í þau. Fyrir fundinum liggja því lagabreytingartillögur sem laga skilyrði löglegs aðalfundar að þessum breyttu aðstæðum.

Aðgengi er gott fyrir fólk í hjólastól. Börn eru velkomin og það verður séð fyrir næringu og dundi fyrir þau.

Wednesday, January 23, 2019

Umsögn DíaMat um þungunarrof

Til: Alþingis Íslendinga

Frá DíaMat -- félagi um díalektíska efnishyggju
Reykjavík, 23. janúar 2019

Umsögn um 393. mál, lagafrumvarp á 149. löggjafarþingi 2018–2019 (frumvarp um breytingu á lögum um þungunarrof/fóstureyðingar)

DíaMat -- félag um díalektíska efnishyggju fagnar umræðu og áformum um rýmkaðan rétt kvenna til að enda þungun. Félagið er hlynnt því að konur þurfi ekki samþykki félagsráðgjafa eða læknis til að mega rjúfa þungun og það er líka hlynnt því að ólögráða stúlkur geti látið rjúfa þungun án þess að þurfa að segja foreldrum sínum frá því. Félagið ætlar ekki að öðru leyti að veita efnislega umsögn um frumvarp það sem liggur fyrir Alþingi.

Í svo mikilvægu og um leið svo viðkvæmu máli sem þessu skiptir miklu að vandað sé til verka og að hlustað sé á þær raddir sem líklegastar eru til að ráða heilt. Þar er nærtækt að benda á t.d. vísindamenn og á baráttufólk fyrir mannréttindum. Hins vegar er erfitt að sjá hvaða erindi félög eiga í þessa umræðu, sem byggja skoðanir sínar á hjátrú og hindurvitnum.

Trúarbrögð ættu ekki að hafa áhrif á hvernig landinu er stjórnað, og alls ekki á hvernig mannréttindum er háttað. Þau svara því ekki á hvaða viku sé hæfilegt að þungunarrof megi fara fram. DíaMat skorar því á þingmenn að láta ekki umsagnir sértrúarsafnaða, hvorki stórra né lítilla, hafa áhrif á störf sín, hvorki í þessu máli né öðrum.

Fyrir hönd stjórnar DíaMats -- félags um díalektíska efnishyggju,

Vésteinn Valgarðsson,

forstöðumaður

Monday, January 21, 2019

Rósa Luxemburg: díalektísk stund 27/1

Díalektísk stund janúarmánaðar er helguð þýsku baráttukonunni Rósu Luxemburg, en um þessar mundir eru 100 ár síðan hún var myrt. Vésteinn Valgarðsson formaður DíaMats hefur framsögu. Umræður. Messukaffi. Allir velkomnir.
Staður: Friðarhús, Njálsgötu 87
Stund: Sunnudagur 27. janúar kl. 13-14.

Wednesday, January 9, 2019

Aðalfundur DíaMats

Aðalfundur DíaMats verður haldinn laugardaginn 16. febrúar nk. kl. 16. Nánar auglýst síðar.