Wednesday, October 30, 2019

Styrkur til Drekaslóðar

Í fyrradag færði DíaMat Drekaslóð styrk að upphæð 100.000 krónur.
DíaMat styrkir starf nokkurra valinna félaga sem við teljum vera valdeflandi fyrir alþýðufólk. Í síðustu viku styrktum við Hugarafl um sömu upphæð og eigum í haust eftir að veita tvo svona styrki til.
Peningarnir koma úr sóknargjöldum sem félagið fær úr ríkissjóði, ákveðna upphæð fyrir hvern skráðan félaga. Því fleiri sem skrá sig í félagið, því meira hefur það úr að moða til styrkja og annars starfs. Hefur þú skráð þig?

Tuesday, October 22, 2019

Styrkur til Hugarafls

Í gær færði DíaMat Hugarafli styrk að upphæð 100.000 krónur.
Þessi styrkur er fyrsti af nokkrum sem verða veittir í haust. Aurarnir koma úr sóknargjöldunum sem íslenska ríkið greiðir DíaMat, ákveðna upphæð fyrir hvern einstakling sem er skráður í félagið hjá Þjóðskrá Íslands. Mikil fjölgun í félaginu á síðasta ári er ástæðan fyrir að við getum haft styrkina mun hærri í ár en þeir voru í fyrra.
Eruð þið búin að skrá ykkur? Það er mjög einföld og auðveld leið til að styrkja góðan málstað, og kostar ekkert fyrir ykkur sjálf.

Monday, October 21, 2019

Skráið ykkur í DíaMat -- og látið okkur vita

Um leið og DíaMat hvetur fólk til að skrá sig í félagið, og leggja þar með góðum málstað lið án mikillar fyrirhafnar, þá minnum við ykkur á að láta félagið vita að þið séuð skráð (helst í tölvupósti sem endar á yahoo.com en byrjar á "vangaveltur"). Til að gagnkvæm réttindi og skyldur skráðra félaga og félagsins séu á hreinu, þarf félagið að vita af ykkur. Það er vegna þess að Þjóðskrá Íslands neitar að afhenda trúar- og lífsskoðunarfélögum lista yfir þá sem eru skráðir hjá henni, og ber fyrir sig ný persónuverndarlög. Við getum t.d. ekki sent ykkur aðalfundarboð nema við vitum að þið séuð skráð.

Fljótlegasta leiðin til að skrá sig er að fara inn á Ísland.is og logga ykkur þar inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli. Þá veljið þið "Þjóðskrá" og "Skráningin mín" og síðan "Breyta trú-/lífsskoðunarfélagi" og velja DíaMat af listanum. Gleymið ekki að vista skráninguna! Og gleymið ekki að láta okkur vita, ef þið viljið njóta réttinda ykkar sem skráðir félagar.

Thursday, October 3, 2019

Fjölgun í DíaMat -- hefur ÞÚ skráð þig?

Í dag komu út frá Þjóðskrá Íslands nýjar tölur um skráningu í trúar- og lífsskoðunarfélög.
Samkvæmt þeim hefur fjölgað í DíaMat og eru nú skráðir 114 félagar. Það gerir jafnframt að við höfum færst upp um tvö sæti á listanum eftir stærð félaga og erum komin í 25. sæti af 49, eða nákvæmlega í miðjuna.
Eruð þið búin að skrá ykkur í DíaMat?
Það er hægt að gera það rafrænt í gegn um Island.is og er ótrúlega einfalt og fljótlegt.

(Athugið að ef þið skráið ykkur rafrænt þurfið þið að láta félagið ((þ.e.a.s. formanninn = mig)) vita, ef þið viljið fá aðalfundarboð í pósti til að geta notið réttinda ykkar sem félagar.)