Wednesday, February 6, 2019

Lagabreytingartillögur fyrir aðalfund DíaMats 16. febrúar


Aðalfundur DíaMats -- félags um díalektíska efnishyggju verður haldinn kl. 16:00 laugardaginn 16. febrúar næstkomandi, í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf. Fyrir fundinum liggja lagabreytingartillögur, þær eru merktar með rauðu í textanum hér að neðan. Núgildandi lög félagsins, óbreytt, má hins vegar finna hér á heimasíðunni.

LÖG FYRIR DÍAMAT
LÖG FYRIR DÍAMAT - FÉLAG UM DÍALEKTÍSKA EFNISHYGGJU
SAMÞYKKT Á STOFNFUNDI 22. APRÍL 2015, BREYTT Á AÐALFUNDI 28. JANÚAR 2017 OG AFTUR BREYTT 28. FEBRÚAR 2018

1 Nafn og aðsetur
1.1 Félagið heitir DíaMat - félag um díalektíska efnishyggju.
1.2 Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. Starfssvæði þess er landið allt.

2 Tilgangur
2.1 Tilgangur félagsins er að vera samfélag og samstarfsvettvangur fólks sem aðhyllist díalektíska og sögulega efnishyggju, samkvæmt skilningi stofnskrár félagsins, til að stuðla að þroska, sjálfsforræði og velferð alþýðunnar.

3 Starf
3.1 Félagið mun vinna að tilgangi sínum með rannsóknum, boðun og fræðslu um díalektíska efnishyggju og í anda hennar. Það mun halda námskeið og málfundi. Það mun gefa út frumsamið og þýtt efni. Það mun styðja starf í anda stefnunnar, svo sem fræðistörf og baráttu fyrir mannréttindum og félagslegu réttlæti. Félagið vinnur að velferð og hamingju félagsmanna með persónulegum og félagslegum stuðningi og samstöðu, eftir þörfum og atvikum.
3.2 Félagið mun koma sér upp aðstöðu fyrir fundi og aðra starfsemi sína.
3.3 Félagið mun annast nafngjafir, jarðarfarir og aðrar athafnir þeirra félagsmanna sinna sem þess óska, sjálft eða í samstarfi við aðra. Það mun halda athafnir tengdar hátíðisdögum sínum.

4 Aðild
4.1 Félagið er opið öllum þeim sem aðhyllast díalektíska efnishyggju, eiga lögheimili á Íslandi, eru orðnir fullra 16 ára, samþykkja að hlíta lögum þess og eru skráðir í félagið hjá Þjóðskrá Íslands.
4.1.1 Stjórn skal eftir getu halda lista yfir nöfn, heimilisföng og tölvupóstföng félagsmanna. Félagsmenn skulu gefa sig fram við ritara stjórnar og láta hann vita ef breyta þarf eða bæta við skráningu í félagatal. 4.2 Stjórn getur vikið félögum úr félaginu ef þeir spilla orðstír þess, brjóta gegn lögum þess eða tilgangi eða bregðast trúnaði þess. Brottviknir félagar eiga rétt á að skjóta máli sínu til næsta aðalfundar eða aukaaðalfundar.

5 Öldungaráð
5.1 Öldungaráð DíaMats mynda allir þeir sem skráðir voru í félagið hjá Þjóðskrá Íslands þann 28. janúar 2017. Frá og með aðalfundi 2018 getur hver reglulegur aðalfundur kosið einn til viðbótar í Öldungaráð. Öldungaráðsmaður sem skráir sig úr félaginu hjá Þjóðskrá Íslands telst þar með einnig vera skráður úr Öldungaráði. Öldungaráðsmaður sem hættir tímabundið í félaginu, t.d. vegna búsetu erlendis, getur endurheimt stöðu sína í Öldungaráði með samþykki Öldungaráðs.
5.2 Fyrir hvern aðalfund skal Öldungaráð funda og kjósa úr sínum hópi þrjá stjórnarmenn, umboð þeirra tekur gildi frá aðalfundinum.
5.3 Fundur Öldungaráðs er löglegur ef til hans er boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara.

6 Stjórn
6.1  Stjórn félagsins skipa fimm félagar: Þrír eru kosnir  af Öldungaráði fyrir aðalfund, tveir eru kosnir á aðalfundi. Stjórn skiptir með sér verkum.
6.2 Ef stjórnarmaður forfallast til lengri tíma eða hættir í stjórn skal stjórn finna staðgengil til næsta aðalfundar eða aukaaðalfundar.
6.3 Stjórn ber sameiginlega ábyrgð á starfi félagsins milli aðalfunda og hjálpast að eftir atvikum.
6.4 Stjórn ber sameiginlega ábyrgð á firmaritun félagsins.
6.5 Stjórnarfundur er löglegur ef hann er boðaður með minnst fjögurra virkra daga fyrirvara og hann situr meirihluti stjórnarmanna.
6.6 Stjórn getur skuldbundið félagið fjárhagslega á grundvelli bókaðra samþykkta löglegra stjórnarfunda.
6.7 Stjórn ber sameiginlega ábyrgð á að halda skjölum félagsins til haga.
6.8 Formaður ber ábyrgð á að fundir séu boðaðir og hann stjórnar þeim ef ekki er annar fundarstjóri kosinn. Hann er aðaltalsmaður félagsins út á við. Hann hefur tvöfalt atkvæði ef atkvæðagreiðslur falla á jöfnu.
6.9 Varaformaður er staðgengill formanns.
6.10 Ritari ritar fundargerðir og aðrar bókanir í gerðabók félagsins. Hann heldur utan um spjaldskrá Öldungaráðs. Hann sér til þess að nýjustu upplýsingar um lög og aðrar samþykktir, og um stjórn og aðra trúnaðarmenn félagsins, séu ávallt aðgengilegar félögum og berist til ríkisskattstjóra.
6.11 Gjaldkeri hefur prókúru fyrir félagið. Hann ber ábyrgð á ársreikningi og öðrum reikningum og fjármálum félagsins gagnvart stjórn.

7 Reikningsár
7.1 Reikningsár félagsins er almanaksárið.

8 Aðalfundur
8.1 Aðalfundur er æðsta vald í málefnum félagsins.
8.2 Aðalfund skal halda fyrir lok febrúar á hverju ári.
8.3 Aðalfund skal boða á heimasíðu félagsins með tillögu að dagskrá, með minnst mánaðar fyrirvara. Hann skal einnig boða bréflega til allra sem hafa atkvæðisrétt og kjörgengi á fundinum, sjá grein 8.4.
8.3.1 Fái félagið ekki afhentan lista yfir félagsmenn sína frá Þjóðskrá Íslands, skal aðalfundur teljast löglega boðaður ef fundarboð er birt á heimasíðu félagsins og í prentuðu dagblaði. Auk þess skal stjórn senda bréflegt fundarboð til þeirra félagsmanna sem það veit um og getur náð í. 8.4 Á aðalfundi hefur hver sá félagsmaður kjörgengi og eitt atkvæði, sem er skráður í félagið hjá Þjóðskrá Íslands 1. desember árið á undan. Stjórn skal hafa þann lista til reiðu þegar aðalfundarboð er sent út, sbr. grein 8.3. Falli atkvæði á jöfnu hefur formaður tvöfalt atkvæði, nema í kosningu um lagabreytingar.
8.4.1 Fái félagið ekki afhentan lista yfir félagsmenn sína frá Þjóðskrá Íslands, skal það vera skilyrði kosningaréttar og kjörgengis félagsmanns á fundinum, að hann hafi fyrir kosningu fært fundarstjóra sönnur á að hann sé enn skráður í félagið. 8.5 Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.
8.6 Á dagskrá aðalfundar skal vera:
8.6.1 Kosning fundarstjóra og fundarritara,
8.6.2 Skýrsla stjórnar um starf félagsins á starfsárinu,
8.6.3 Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram og afgreiddir,
8.6.4 Lagabreytingar,
8.6.5 Kjör tveggja stjórnarmanna sem aðalfundur kýs,
8.6.6 Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga, sem ekki eru í stjórn,
8.6.7 Kjör eins nýs félaga í Öldungaráð (ekki skylda),
8.6.8 Önnur mál.
8.7 Stjórn getur bætt við dagskrárliðum í fundarboði ef þurfa þykir. Það getur aðalfundur einnig gert sjálfur.
8.8 Aðalfundi er stjórnað samkvæmt almennum fundarsköpum. Setji félagið sér sérstök fundarsköp, gilda þau.
8.9 Aukaaðalfund skal boða, á sama hátt og aðalfund, strax og formaður, meirihluti stjórnar eða þriðjungur Öldungaráðs eða fleiri æskja þess og leggja fram tillögu að dagskrá.

9 Lagabreytingar og slit félagsins
9.1 Lögum félagsins getur aðalfundur breytt með 2/3 hluta atkvæða. Fimmta kafla laganna, um Öldungaráð, verður þó ekki breytt nema með undangengnu samþykki Öldungaráðs ásamt samþykki aðalfundar.
9.2 Breytingar á stofnskrá skal afgreiða eins og lagabreytingu, en teljast ekki samþykktar nema með þrem fjórðu hlutum atkvæða.
9.3 Komi fram tillaga um að leggja félagið niður skal fara með hana eins og lagabreytingartillögu, en hún telst ekki samþykkt nema með þrem fjórðu hlutum atkvæða og að helmingur félagsmanna eða fleiri sitji fundinn. Sé tilskilinn meirihluti fundarmanna samþykkur tillögunni, en fundarsókn ófullnægjandi, skal án tafar boða til framhaldsaðalfundar innan fimm vikna og getur hann þá afgreitt tillöguna með sama hlutfalli atkvæða en óháð fundarsókn. Öldungaráð skal þá og koma saman og ráðstafa eignum félagsins í samræmi við tilgang þess.