Friday, August 31, 2018

Díalektísk messa á LÝSU á Akureyri 8. september

DíaMat tekur þátt í LÝSU (áður Fundi fólksins) í Hofi á Akureyri, eins og undanfarin ár. Við verðum að venju með díalektíska messu. Hún verður á laugardeginum 8. september, í Setbergi kl. 11-12.
Umfjöllunarefni dagsins verður eðli og hlutverk menningar í framsæknum þjóðfélagsbreytingum. Varaformaður DíaMats, Þorvaldur Þorvaldsson, hefur framsögu og síðan verða umræður. Þá verður félagið sjálft kynnt, og starfsemi þess. Kaffi og te!

Thursday, August 23, 2018

Sumarferð á laugardag

DíaMat efnir til sumarferðar á laugardaginn. Því miður datt það uppfyrir að auglýsa hana nánar hér á heimasíðunni, en hún hefur hins vegar verið kynnt allrækilega á Facebook-hópi félagsins.
Farið verður að Skógum undir Eyjafjöllum og Keldum á Rangárvöllum. Ferðin verður sjálfráð um hvort annarra áfangastaða verður vitjað.
Fullt verð er 3000 krónur og fyrir utan rútuferðina er þá innifalinn aðgangur að báðum söfnunum. Ekkert fargjald er fyrir félaga í DíaMat, fyrir mjög tekjulágt fólk og fyrir börn.
Gjörið svo vel að láta vita strax, ef þið viljið koma með: vangaveltur@yahoo.com

Monday, August 6, 2018

Gegn kjarnorkuvígbúnaði

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur alþýðu heimsins gegn kjarnorkuvígbúnaði, en dagsetningin er valin til að minnast þess er Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengjunni á Hiroshima á þessum degi 1945. DíaMat tekur undir kröfuna um kjarnorkuafvopnun, enda erfitt að ímynda sér meiri hættu af mannavöldum fyrir fólk og annað lífríki á jörðinni heldur en kjarnorkusprengingu. Rétt er að nefna að friðarsinnar fleyta oft friðarkertum í dag, reykvískir friðarsinnar t.d. á Reykjavíkurtjörn. Tilvalið er að verða sér úti um friðarkerti og setja það á flot á friðsælum stað. Passið bara að skilja ekki eftir rusl á víðavangi, og farið varlega með eld.