Monday, May 28, 2018

Reynsla af geðheilbrigðiskerfi á Íslandi og í Danmörku

Gunnar Örn Heimisson segir frá reynslu sinni af geðheilbrigðiskerfinu á Íslandi og í Danmörku í díalektískri messu í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, þriðjudagskvöldið 29. maí kl. 20:00.
Umræður og messukaffi.
Allir velkomnir.

Monday, May 14, 2018

14. maí er vinnuhjúaskildagi

Á dögum vistarbandsins var 14. maí vinnuhjúaskildagi. Þá máttu vinnuhjú fara vistaskiptum, velja sér nýja húsbændur.
Nú er öldin önnur. Við berum sjálf ábyrgð á okkur, alla daga ársins. Við getum hvenær sem er valið hverjum við viljum fylgja, gömlum húsbónda eða nýjum eða kannski öðrum vinnuhjúum á vit nýrra og betri tíma, eftir leiðum samstöðu og baráttu.
Við megum það hvenær sem er. En dagurinn í dag er prýðilega góður til að taka af skarið og velja hverjum maður vill fylgja inn í framtíðina.

Tuesday, April 17, 2018

Díalektísk barnamessa í Húsdýragarðinum!

Sumardaginn fyrsta býður DíaMat í Húsdýragarðinn!
Fimmtudaginn 19. apríl milli kl. 10:00 og 10:20 borgar DíaMat aðgangseyrinn fyrir alla sem vilja vera með í díalektísku barnamessunni: Fyrst skoðum við dýrin til hádegis, síðan býður DíaMat upp á veitingar á kaffistofunni um kl. 12 og á meðan við snæðum, tölum við um dýrin, náttúruna og fólkið á plani sem hæfir þeim yngri.
Allir velkomnir sem eru hæfir til að vera nálægt börnum og dýrum.

Sunday, March 25, 2018

Miðvikudag: Díalektískar athafnir til umræðu í messu

Miðvikudaginn 28. mars klukkan 17:00 verður díalektísk messa í Friðarhúsi, Njálsgötu 87.

Vésteinn Valgarðsson, forstöðumaður félagsins, opnar umræður um innra starf félagsins, einkum það sem snýr að athöfnum á vegum þess: Skilyrði þeirra, inntak, form og annað.

Allir velkomnir, börn og fullorðnir.

Tuesday, March 20, 2018

Gleðileg jafndægur á vori

DíaMat óskar öllu mannkyni gleðilegra jafndægra á vori. Dagurinn í dag er ekki bara varða á leiðinni til sumars og sólar, heldur er hann líka táknrænn fyrir jöfnuð, því sólin skín jafnlengi á alla jarðarbúa, réttláta og rangláta.


Vonandi hafa líka allir átt uppbyggilegan 147 ára afmælisdag Parísarkommúnunnar á sunnudag.

Thursday, March 1, 2018

Af aðalfundi DíaMats 2018

DíaMat hélt aðalfund í gær, 28. febrúar, í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105. Fundarstjóri var forstöðumaður félagsins, Vésteinn Valgarðsson. Fundarritari var varaformaður félagsins, Þorvaldur Þorvaldsson.
Forstöðumaður flutti skýrslu stjórnar og rakti starf félagsins á liðnu starfsári.
Forstöðumaður kynnti ársreikninga félagsins fyrir reikningsárið 2017. Voru þeir samþykktir og verða sendir ríkisendurskoðun eins og þeir eru.
Samþykkt var samhljóða lagabreytingartillaga frá öldungaráði, um að atkvæðisrétt á aðalfundi eigi allir sem skráðir voru í félagið hjá Þjóðskrá Íslands 1. desember árið á undan í stað 1. janúar sama ár.
Í stjórn voru endurkjörin Claudia Overesch og Skúli Jón Unnarson. Stjórnin hefur þá öll endurnýjað umboð sitt, en á öldungaráðsfundi í janúar voru Elín Helgadóttir, Vésteinn Valgarðsson og Þorvaldur Þorvaldsson endurkjörin í stjórnina.
Félagslegir skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir: Árni Daníel Júlíusson og Tinna Þorvalds Önnudóttir.
Samþykkt var að Claudia Overesch yrði tekin inn í öldungaráð.
Lóðarumsókn félagsins var kynnt og rædd. Samþykkt að stjórn fylgi málinu áfram eftir.
Fjárhagsáætlun var samþykkt, hlutfallslega óbreytt frá árinu á undan.
Ýmsar aðrar hugmyndir um starf félagsins voru ræddar áður en fundi var slitið kl. 22:40.

Tuesday, February 27, 2018

Munið aðalfund á morgun

Aðalfundur DíaMats verður haldinn annað kvöld. Sjáumst!

DíaMat heldur árlegan aðalfund sinn miðvikudagskvöldið 28. febrúar næstkomandi. Hann verður haldinn í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105. Fyrst, kl. 19:30, er díalektísk messa, þar sem Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskyldu- og hjónaráðgjafi, kynnir bókina Að vita hvað konur vilja: Vísindalega sönnuð leyndarmál um samskipti kynjanna. Umræður.
Kl. 20:30 er aðalfundur settur. Dagskrá hans er skv. lögum félagsins. Ráðgert er að fundarstörfum verði lokið fyrir kl. 22:30. Á aðalfundi eiga atkvæðisrétt allir sem skráðir voru í félagið fyrir 1. janúar sl.