Fyrir viku barst forstöðumanni DíaMats bréf þess efnis að yfirvöld hafi skráð félagið sem lífsskoðunarfélag, í samræmi við lög nr. 108 1999 um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Það þýðir að forstöðumaður hefur leyfi til að gefa fólk saman í hjúskap og að ríkissjóður mun borga félaginu sóknargjöld fyrir hvern þann sem skráður er í það hjá Þjóðskrá Íslands (næsta ár miðast við skráningu 1. desember nk.). Fólk sem aðhyllist díalektíska efnishyggju hefur með öðrum orðum fengið viðurkenningu á félagsskap sínum og situr nú við sama borð og aðrar lífsskoðanir í landinu -- tja, fyrir utan Þjóðkirkjuna, sem situr skör hærra en allir aðrir.